
Amarayoga býður upp á jógakennaranám sem er skráð hjá Jógakennarafélagi Íslands og Yoga Alliance of America. Það merkir að að minnsta kosti lágmarkskröfum er mætt í hverjum lið kennslunnar, sögu og heimspeki, anatómíu og hreyfifræði, kennslutækni, siðferði jógakennarans, osfrv. Einnig verður farið yfir bókhald og skattskil jógakennarans.
Eingöngu er tekið á móti 12 í hverjum hóp til að tryggja að tryggja að nemarnir hafi góðan aðgang að kennara meðan á náminu stendur. Útskrifaður nemi verður hluti af samfélagi Amarayoga kennara sem halda hópinn á Facebook.
Þetta nám veitir alþjóðleg réttindi til að kenna hefðbundna jógatíma, hatha yoga og vinyasa.
Skráning er hafin fyrir veturinn 2025-2026. Þetta verður 16. hópurinn sem leggur af stað í þetta skemmtilega, fræðandi og uppbyggjandi ferðalag. Sumir sem leggja af stað eru ákveðnir í að kenna jóga eftir útskrift, aðrir fara í námið til eigin uppbyggingar. Þegar staðfestingargjald hefur verið innt af hendi fá nemendur aðgang að jógatímum á netinu og geta æft á eigin tíma.


Veturinn 2024-2025 prófuðum við í fyrsta sinn að kenna að miklu leiti í gegnum vefinn. Þessi tilraun gekk vonum framar svo við höldum áfram með þessum hætti! Námið fer að stórum hluta fram í gegnum netið, með fyrirfram uppteknum fyrirlestrum sem hægt er að horfa á þegar vel stendur á og eins oft og hentar. Kennslubækurnar (innifaldar í verði) verða afhentar fyrstu helgina.
Við hittumst fjórar helgar, tvær á hvorri önn, en þess á milli höldum við sambandi í gegnum Zoom. Á helgunum í Hafnarfirði einbeitum við okkur að æfingunum sjálfum og fullvissum okkur um að allir nemar nái góðum tökum á þeim. Anatómían er að miklu leiti kennd á staðnum, í Hafnarfirði og nemendur fá tækifæri til að æfi sig að kenna á þessum helgum.
Nemendur þurfa að taka örfá krossapróf úr kennsluefninu og skila inn stuttu verkefni um anatómíu. Þeir þurfa að sannfæra kennarann um að þeir hafi náð þokkalegum tökum á efninu. Námið krefst þó ekki svo mikils af nemendum að það er vel gerlegt að taka það með fullu starfi.
Helgarnar í Hafnarfirði verða:
6. og 7. sept - Við kynnumst og förum yfir málin
1. - 2. nóvember - Anatomia með Rakel
31. jan - 1. feb. janúar 2026 - Kennslutækni og æfingakennsla
28. - 29. mars 2026 - Sýnikennsla og útskrift
Við hittumst á Zoom eftirfarandi laugardaga, oftast 2 klst hver fundur: 20. sept, 4. okt, 18. okt, 15. nov, 29. nov, 13. des, 3. jan, 17. jan, 14. feb, 28. feb, og 14. mars.
Markmiðið með náminu er:
Að gefa nemendum öryggi við að framkvæma æfingarnar sjálf sem og að leiða aðra í gegnum þær.
Að kynna fyrir nemendum aðferðir til hugleiðslu og kosti þess að hugleiða. Að sýna hvernig kyrrð í huga helst í hendur við það að sitja í sjálfum sér af fullu öryggi.
Að gefa góðan grunn af anatómískri þekkingu sem aftur gefur öryggi í æfingunum.
Að þjálfa nemendur vel í að setja saman jógatíma af mismunandi gerðum, hvort sem þeir vilja leiða tíma í rólegu "hatha" jóga eða kraftmeira "vinyasa" flæði.
Að fræða nemendur um bakgrunn kerfisins svo þeir séu vel meðvitaðir um muninn á raunveruleika og goðsögnum.
Að gefa forsmekk af því sem finnst í þessari endalausu gullkistu sem við köllum jóga.
Öll námsgögn eru innifalin, bæði handbækur og fyrirlestrar í gegnum vefinn. Einnig eru nemendur velkomnir að æfa í stöðinni meðan á náminu stendur, ef þeir búa nálægt stöðinni og geta nýtt sér tímana í töflunni. Nemendur hafa á meðan á náminu stendur aðgang að öllum tímunum sem fylgja 30x30 ásamt mörgum öðrum tímum á kennsluvefnum.
Athugið að farið er fram á 100% mætingu svo ef þú tekur þátt þarf annað að víkja þessar kennsluhelgar. Að sjálfsögðu er tekið tillit til óviðráðanlegra aðstæðna.
Nauðsynlegt er að staðfesta þátttöku með greiðslu staðfestingargjalds - óafturkræfu - upp á 50.000.- Staðfestingargjaldið dregst svo af heildarupphæðinni.
Verð fyrir námið er 430.000.- staðgreitt fyrir 1. september, en velkomið að skipta niður í 4 greiðslur. Við það hækkar verðið um kr 20.000.- og skiptingin gæti litið svona út: 50.000.- í staðfestingu, 100.000.- fyrir fyrstu kennsluhelgi, 100.000.- 1. október 2024, 100.000.- í janúar 2024 og 100.000.- í febrúar 2025. Athugið að mörg stéttarfélög styrkja félagsmenn sína til þessa náms.
Eftir útskrift eru jógakennarar hvattir til að skrá sig í fagfélagið okkar, Jógakennarafélag Íslands, þar sem við höldum hópinn og gerum stundum eitthvað skemmtilegt saman. Hérna er heimasíða félagsins: https://www.jogakennari.is/
Ef þú vilt skrá þig á alþjóðlegum vetvangi er Yoga Alliance sterkasta skráningarstofan fyrir utan að vera sú fyrsta til að setja upp 200 tíma lágmarkskröfurnar fyrir kennararéttindi. Hérna er síðan þeirra: https://www.yogaalliance.org/
Þarna geturðu líka flett upp á kennurum og skólum sem hafa réttindi til að útskrifa nemendur sem svo aftur geta skráð sig hjá YA.
Ekki hika við að hafa samband ef þú vilt vera með!
Hérna er kynning sem fylgdi vetrinum 2024-2025:
Umsagnir nemenda
"Ég lauk kennaranáminu í Amarayoga vorið 2020 og verð Ástu og Amarayogastöðinni ævinlega þakklát. Námið var krefjandi, lifandi og gefandi svo ekki sé minnst á mannbætandi og heilsueflandi. Ásta er full af visku, fróðleik og reynslu sem hún deilir með nemendum af yfirvegun og góðvild. Ég er þakklát fyrir að hafa treyst innsæi mínu og valið námið í Amarayoga hjá Ástu."
Erla Björg Rúnarsdóttir
"Ég hóf spennt jógakennaranám í Amarayoga hjá henni Ástu Maríu Þórarinsdóttur síðastliðið haust og í stuttu máli sagt þá varð ég ekki fyrir vonbrigðum. Ástu Maríu tókst að auka skilning minn á jógafræðunum, ekki bara stöðunum/asanas sem jógaiðkun gengur svo mikið út á í vestrænu samfélagi, heldur einnig sögunni og þróun jógaiðkunar, siðfræðinni og heimspekinni sem liggur á bak við jóga. Fyrir utan beina kennslu einkenndist námið af hlýju, skilningi og góðum samræðum. Anatómíu kennslan var einnig frábær.
Þetta nám hefur gefið mér meira en margt annað nám sem ég hef stundað og mun halda áfram að gefa. Og það sem er best er að geta áfram leitað svara hjá Amarayoga."
Ásta María Hjaltadóttir
"Ég, persónulega, fékk mjög mikið út úr yogakennaragrunnnáminu. Þetta nám var skemmtilegt, fróðlegt, hvetjandi, bætandi og félagsskapurinn í Amarayoga, bæði í yogakennaranemahópnum og í tímum með viðskiptavinum stöðvarinnar, var yndislegur. Það kom mér á óvart hversu mikið ég gat lært persónulega um sjálfa mig og almennt um heimspekilega mannbætandi eiginleika yoga veraldar á svona stuttum tíma. Þess vegna kviknaði ný hugmynd hjá mér – að skrá mig í framhaldsyogakennararéttindanám – sem og ég gerði um leið og hægt var. Mér finnst gaman að skora á mig, prófa nýja hluti og fara út úr þægindarammanum mínum. Svona finnst mér að ég gæti orðið betri fyrirmynd nemenda og viðskiptavina minna í Heilsuskólanum. Ég er þakklát fyrir þá þekkingu og reynslu sem ég hef öðlast í náminu mínu í Amarayoga og hlakka til áframhaldandi persónulegrar vaxtar og framþróunnar."
Tanya Dimitrova
"Kennaranámið í Amarayoga er bæði fjölbreytt og fróðlegt. Kennararnir nálgast efnið af opnum huga og gera sögu yoga góð skil auk þess að kynna nemendum mismunandi tegundir þess svo hver og einn geti fundið sér það áhugasvið sem hann vill svo síðar kanna.
Stöðin er hlýleg og yndisleg og tímarnir fjölbreytilegir og skemmtilegir."
Auður Bergdís
Ásta María Þórarinsdóttir sér um kennsluna og gestakennari er Rakel Dögg Sigurgeirsdóttir. Ásta María hefur stundað jóga í yfir 40 ár og starfað sem jógakennari frá aldamótum. Hún er skráð hjá Yoga Alliance of America með alþjóðleg réttindi til að útskrifa jógakennara. Ásta María hefur einnig verið stjórnarmeðlimur hjá Jógakennarafélagi Íslands um árabil. Rakel Dögg útskrifaðist frá Amarayoga árið 2016. Rakel er sjúkraþjálfari og hún kennir anatómíu hluta námsins á sinn einstaklega skemmtilega hátt.

