top of page

Framhaldsnám og námskeið

Hér að neðan finnur þú námskeið sem hægt er að taka ein og sér en einnig sem hluta af 300 tíma framhaldsnámi á vegum Amarayoga. Námið er samþykkt af Yoga Alliance (www.yogaalliance.org) og Jógakennarafélagi Íslands (www.jogakennari.is).

YACEP.png

Amara nídra (50 stundir) 

Næst kennt vor 2026 

Amara nidra.png

Fyrir jógakennara og aðra fagaðila sem vinna með fólk. 

Jóga nídra er mögnuð aðferð til að hjálpa fólki við að ná djúpri slökun. Í þessu ástandi, milli svefns og vöku, er svo mögulegt að vinna með allskonar hluti sem geta verið að plaga fólk, svo sem streitu, óöryggi og ýmislegt annað, smærra og stærra. Þar fyrir utan eru tímarnir bara yndisleg slökun og góð leið til að hjálpa fólki við að ná góðum nætursvefni.

Námið hefst 10. janúar 2026 og lýkur 1. mars 2026.​

Síðasti skráningardagur er miðvikudagurinn 7. janúar 2026.

Verð kr. 115.000.-​ og skal greitt við skráningu. 

ATH að einungis verða teknir inn 12 nemar!

Skráning fer fram gegnum amarayoga@gmail.com.

Önnur námskeið sem kennd verða síðar:

Framhaldsnámið er í endurskipulagningu þessa dagana. 300 tíma námið verður sett saman úr fimm 60 stunda námskeiðum. Stundum verður boðið upp á styttri námskeið, sem gilda sem CEU einingar en ekki endilega sem hluti af framhaldsnáminu.

- Heimspeki jóga, 25 stundir. Engar forkröfur fyrir utan áhugann! 

Þetta námskeið fer fram á tveimur helgum (eða í 2 hlutum í gegnum netið):

Fyrri helgina skoðum við ræturnar og jarðveginn. Við kynnumst Vedunum lítilsháttar og skoðum valda kafla úr Upanishad ritunum. Loks skoðum við vel eitt þekktasta rit innan jógaheimsins:  Jógasútrur Patanjalis.

Seinni helgina skoðum heimspekina á bak við Advaita Vedanta hefðina, Bhagavad Gita, Brahma Sutra og Upanishad. Við kynnumst einnig Shankaracharya sem á heiðurinn af þessari hefð

- Orkustöðvarnar og jóga, 25 stundir. Fyrir jógakennara og aðra áhugasama

Á þessu námskeiði skoðum við hvaðan orkustöðvarnar koma og hvernig þær hafa þróast til dagsins í dag. Við skoðum hvernig við getum nýtt okkur þetta kerfi til eigin þroska og við skoðum hvernig við getum sett sama jógatíma með orkustöðvarnar og áhrif þeirra í huga.

​Nánar síðar.

- Jóga og ayurveda, 60 stundir. Forkröfur: að hafa lokið 200 tíma jógakennaranámi

Í þessum hluta skoðum við hin fornu fræði ayurveda og hvaða hugsun liggur að baki þeim. Við skoðum hvernig ayurveda skiptir fólki upp í mismunandi líkamsgerðir og hvernig mismunandi líkamsgerðir þurfa mismunandi nálgun á jóga. Við æfum okkur í að setja upp tíma fyrir hinar mismunandi líkamsgerðir, vata, pitta og kapha.

Ásta María Þórarinsdóttir, E-RYT500, YACEP og ayurveda lífsstílsleiðbeinandi frá American Institude of Vedic Studies, kennir grunn ayurveda fræðanna og hvernig mismunandi jóga hentar mismunandi líkamsgerðum. 

Íris Thorlacius Hauksdóttir, JKFÍ-RYT-500, líffræðingur og jógakennari, mun fara vel yfir starfsemi meltingarkerfisins.

- Samyama: Hugleiðsla, orkustöðvarnar og pranayama, 60 stundir. Forkröfur: að hafa lokið 200 tíma jógakennaranámi

Hér er á ferðinni kennaraþjálfun þar sem við förum yfir aðferðir við hugleiðslu og hvernig við getum leitt hugleiðslutíma.

Nemendur æfa sig sjálfir að hugleiða, að leiða aðra í gegnum hugleiðslu, og þurfa svo að leiða samnemendur sína í gegnum einn tíma. 

Ásta María Þórarinsdóttir, E-RYT500, sér um megnið af kennslunni. Ásta mun kynna nokkrar hefðbundnar hugleiðsluaðferðir og hvernig væri hægt að leiða opna hóptíma. 

Íris Thorlacius Hauksdóttir, JKFÍ-RYT-500, líffræðingur og jógakennari, mun fara vel í taugakerfið og starfsemi heilans.

Við skoðum hvaðan orkustöðvarnar koma og hvernig þær hafa þróast til dagsins í dag. Við skoðum hvernig við getum nýtt okkur þetta kerfi til eigin þroska og við skoðum hvernig við getum sett sama jógatíma með orkustöðvarnar og áhrif þeirra í huga.

Við skoðum öndun og loftskipti líkamans, pranayama öndunaræfingar og hvernig við leiðum fólk í gegnum þær æfingar, ásamt því að leiða asana tíma með áherslu á pranayama. ​​

Ásta María Þórarinsdóttir, E-RYT500, sér um megnið af kennslunni. 

Íris Thorlacius Hauksdóttir, JKFÍ-RYT-500, líffræðingur og jógakennari, mun fara vel í öndunarfærin og loftskipti líkamans.

Vigdís Gunnarsdóttir, leikkona, hjálpar okkur að ná í bestu röddina okkar.

- Asana (Saga Hatha Yoga, anatómía og kennslutækni) 60 stundir. Forkröfur: að hafa lokið 200 tíma jógakennaranámi 

Hér æfum við kennslutækni. Við skoðum hvernig fólk lærir á mismunandi hátt og hvernig við nálgumst mismunandi gerðir af nemendum. Við æfum okkur í að setja saman tíma, vinnustofur og lengri námskeið. Við skoðum mismunandi kennslustíla og athugum hvað við þurfum að hafa í huga ef við kennum einkatíma (maður á mann). Við skoðum flóknari asönur og hvernig við getum kennt þær. Og við æfum okkur í að aðstoða og leiðrétta, bæði með orðum og höndum.

Í þessum hluta skoðum við jógaæfingarnar út frá anatómíu líkamans. Við skoðum algeng meiðsli, bæði þau sem geta orðið í jógaástundun og þau sem nemendur koma með til okkar. Við skoðum hvernig má aðlaga jógastöður að mismunandi líkömum ofl.

Íris Thorlacius Hauksdóttir, JKFÍ-RYT-500, líffræðingur og jógakennari, mun fara yfir líffræði stoðkerfisins .

Ásta María Þórarinsdóttir, E-RYT500, YACEP, fer yfir algeng líkamleg vandamál og hvernig við vinnum með þau sem jógakennarar, hvernig beinabygging er mismunandi hjá fólki sem gefur fólki mismunandi möguleika í jógastöðunum, hvernig við getum aðlagað jógastöðurnar að einstaklingum og nýtt okkur hjálpartæki eins og kubba og bönd, og ýmislegt fleira. 

Rakel Dögg Sigurgeirsdóttir, sjúkraþjálfari og jógakennari, mun ræða við okkur um verki í líkamanum, ástæður og viðbrögð. 

- Agama (Tantrayoga), 60 stundir. Forkröfur: að hafa lokið 200 tíma jógakennaranámi

Þetta námskeið hét áður Tantrayoga, en vegna tenginga í huga fólks við "neo-tantra" og kynlíf hefur nafninu verið breytt í Agama. Hér er á ferðinni námskeið um hefðir Indverja á tímabilinu í kringum 400-1200. Á því tímabili komu margar nýjar hugmyndir inn í heim jógans. Ritin sem geyma lýsingar hefðanna eru ýmist kölluð töntrur, agömur eða söfnin (samhitas).

Á þessu námskeiði skoðum við þessar hugmyndir og hvernig þær hefur þróast til dagsins í dag. Tantra var oft kallað "Leið möntrunnar" þar sem möntrur spila svo stórt hlutverk í aðferðunum. Við skoðum stækkun samkhya sköpunarkerfisins, innvígslur og fyrirferðarmiklar athafnir. Á þessu tímabili birtast gyðjurnar sem kvenhlið almættisins. Þær birtast sem shakti, eða kraftar. 

Við skoðum hefðina eins og hún var og eins og hún hefur skilað sér til okkar í dag. Við skoðum möntrur og tilgang þeirra, yöntrur og tilgang þeirra, hvað puja er, diksha ofl. Við skoðum hvernig orkustöðvarnar voru upphaflega hugsaðar og hvernig við getum nýtt okkur þær við hugleiðslu. Við kynnumst gyðjunum, matríkunum og viskugyðjunum 10 og hvernig þær geta hjálpað okkur ef við viljum. Og við skoðum hvernig við getum nýtt okkur þessa gömlu hefð í jógatímum dagsins í dag.

Hefðir Hatha Yoga (50 stundir) 

Næst kennt haust 2025 

- Hefðir Hatha Yoga, 50 stundir. Forkröfur: að hafa lokið 200 tíma jógakennaranámi. 

Á þessu fimmtíu stunda námskeiði skoðum við hvaðan líkamlegu jógastöðurnar eru komnar. Við skoðum forsöguna, upp úr hvaða jarðvegi hefðin er sprottin. Svo skoðum við endurkomu hatha yoga á tuttugustu öldinni og mismunandi hefðir dagsins í dag. Hvað hefur breyst?

Þetta námskeið telst sem CE einingar hjá Yoga Alliance (50t) og sem hluti af 300 tíma framhaldsnámi hjá Amarayoga (skylda). 

​Ásta María Þórarinsdóttir, E-RYT500, sér um kennsluna.

Haust 2025:

​Kennslan fer fram á vefnum. Zoom fundir verða á eftirfarandi dögum:

11 október 2025

19 október

9 nóvember

23 nóvember

7 desember

Námskeiðið er í gangi þessa stundina.

©2012 Amarayoga. Allur réttur áskilinn

Amarayoga

Helluhraun 16-18, 220 Hafnarfjörður

Netfang: amarayoga@gmail.com

  • Facebook Clean Grey
  • Instagram
bottom of page