

Nánar um Amara nídra námið
Fyrir jógakennara og aðra fagaðila
Jóga nídra er mögnuð aðferð til að hjálpa fólki við að ná djúpri slökun. Í þessu ástandi, milli svefns og vöku, er svo mögulegt að vinna með allskonar hluti sem geta verið að plaga fólk, svo sem streitu, óöryggi og ýmislegt annað, smærra og stærra. Þar fyrir utan eru tímarnir bara yndisleg slökun og góð leið til að hjálpa fólki við að ná góðum nætursvefni.
Það sem gerir jóga nídra námið í Amarayoga sérstakt er að í þessu námi skoðum við ekki eingöngu jóga nídra eins og það er kennt í dag, heldur skoðum við einnig hefðina sem aðferðin tengist, hið tantríska laya jóga. Við skoðum hugmyndafræðina og mismunandi aðferðir, og skoðum hvernig við getum nýtt okkur fornar hugmyndir um viskugyðjurnar tíu og orkuna sem hver þeirra færir okkur. Við fáum fræðslu um taugakerfi líkamans og skoðum hvernig við getum nýtt jóga nídra til að þjálfa líkamann í að gefa eftir. Það hjálpar okkur í gegnum eril daglegs lífs og getur hjálpar okkur til að sofna fyrr og sofa betur. Við lærum um það hvernig jóga nídra hjálpar okkur við að vinna á streitu og verkjum í líkamanum, vinna okkur í gegnum áföll, og einfaldlega að ná betri tengslum við okkur sjálf. Jóga nídra róar allt kerfið niður og við getum náð betri tökum á lífinu.
Nemendur spreyta sig á að semja sín eigin handrit og æfa sig í að leiða tíma.
Athugið að hér eru ekki kenndar jógaæfingar (asana). Til að fá leyfi til að kenna fulla tíma með jógaæfingum er nauðsynlegt að klára 200 tíma jógakennaranám.


Skipulag
10. janúar 2026 kl 10:00: Stuttur fundur á Zoom þar sem við kynnumst og förum yfir skipulag námsins. Kennsluvefurinn verður kynntur þar sem við höfum fyrirfram upptekna fyrirlestra og efni þeirra á PDF formi. Efnið í þessum pakka er kynning á jóga nídra, tilgangi jóga nídra, sögunni og uppsetningu tímanna. Þarna eru einnig upptökur af mismunandi jóga nídra tímum sem nemarnir æfa heima. Þessa fyrirlestra má hlusta á aftur og aftur meðan á náminu stendur.
Við hittumst svo að Helluhrauni 16:
24. - 25. janúar 2026 - Líffræði svefnsins og handritagerð. Íris Thorlacius Hauksdóttir, líffræðingur og jógakennari, segir okkur ýmislegt um svefninn, tauga- og hormónakerfið.
Við skoðum hráefni jóga nídra tíma og hvernig við getum blandað því saman í dásamlega endurnýjandi tíma slökunar. Því meira sem við eigum tímana sjálf, því betur getum við leitt þá frá eigin hjarta. Við æfum okkur í að semja handrit og prófum þau.
7. - 8. febrúar 2026 - Jóga nídra með sérstöku þema. Hérna lærum við um það hvernig við getum notað jóga nídra til að hjálpa okkur í gegnum vandamál eins og streitu, verki og áföll. Við kynnumst viskugyðjunum 10, Kalí, Töru, Lalítu, Bhuvaneshvari, Chinnamöstu, BhairavilDhumavati, Bagalamukhi, Matangi og Kamölu, og hvernig við getum tvinnað orkunni þeirra inn í jóga nídra tímana. Og við skoðum hvernig hljóðbylgjur hafa áhrif á okkur og hvernig við getum boðið upp á tóna og hljóð í tímunum okkar.
28. febrúar - 1 mars 2026 - Lokahelgin. Hérna ræðum við allt sem við höfum farið í gegnum og æfum okkur í að leiða tíma.
Kennt er kl 11:30-18:00 á laugardögunum og kl 09:00-15:30 á sunnudögunum.

Verð kr. 115.000.- og skal greitt við skráningu. Síðasti skráningardagur er miðvikudagurinn 7. janúar 2026. ATH að einungis verða teknir inn 12 nemar!
Skráning fer fram gegnum amarayoga@gmail.com.
Þetta námskeið telst sem CE einingar hjá Yoga Alliance (50t) og er einnig hluti af 300 tíma framhaldsnámi Amarayoga.
Kennarar: Ásta María Þórarinsdóttir, E-RYT500, og Íris Thorlacius Hauksdóttir, líffræðingur og CYT500.

